Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

FRÉTTIR VIKUNNAR: EINKAMÁL ÞINGMANNS

Fjölmiðlar birtu skjáskot af samskiptum Tómasar Tómassonar þingmanns við vin sinn í vikunni. Samskiptin verða ekki höfð eftir hér, en þar stærði Tómas sig af kynlífi með ungum tælenskum konum. Í kjölfarið hafa miklar umræður átt sér stað, en viðbrögð þingmannsins og formannsins hans, Ingu Sæland, hafa verið úr öllu samhengi við valdakerfi heimsins.

Þau Tómas og Inga hafa bæði talað um gamlar syndir og óviðeigandi talsmáta, en virðast líta á málið sem einkamál Tómasar. Að almenningur eigi ekki að vera að skipta sér af kynlífi fólks.

EINKAMÁL?

Í Tælandi er Tómas í margþættri valdastöðu. Hann er vel fullorðinn, hvítur, ríkur, karlkyns Vesturlandabúi sem veit að afkoma fólksins í Tælandi er háð heimsóknum hans og hans líkra. Hann er í aðstöðu til að biðja um og borga fyrir alla þá þjónustu sem honum dettur í hug.

Ungar konur í Tælandi búa við fjölbreyttar aðstæður. Sumar hafa það fínt og geta valið sér áhugamál og starfsvettvang. Aðrar hafa það verra, jafnvel svo slæmt að þær þurfa að gera gömlum, hvítum, ríkum, karlkyns Vesturlandabúum til geðs.

Látum vangaveltur um vændi liggja milli hluta. Sjötugur karl frá Vesturlöndum sem telur aldur, þyngd og fjölda hjásvæfa vera frásagnarefni ber ekki virðingu fyrir þeim konum sem um ræðir. Sú hegðun sem hann lýsir er því misnotkun á valdamisræmi sem á mun meira skylt við ofbeldi en kynlíf.

SAMTVINNUN (INTERSECTIONALITY)

Valdamisræmið í Tómasarmálinu er einkar skýrt dæmi um samtvinnaða mismunun (intersectional discrimination). Vanvirðingin sem hann sýnir er að öllum líkindum tilkomin vegna blöndu af kvenfyrirlitningu, rasisma, heimsvalda- og stéttahroka sem saman skapa tilkall til þjónkunar. Og án þess að ég vilji gera lítið úr gerendahæfni eða sjálfsákvörðunarrétti tælenskra kvenna, þá er ljóst að margar tælenskar konur sem hafa alist upp við að vera í þjónustuhlutverki gagnvart vesturlenskum túristum eru ekki í stakk búnar til að mótmæla eða neita Tómasi um það sem hann vill. Ekki bara af því þær eru konur, ekki bara af því þær eru tælenskar, ekki bara af því þær eru fátækar, heldur vegna blöndu af öllu þessu.

OG HVAÐ?

Á þingi situr fólk með allskonar skoðanir og allskonar fortíð. En þetta mál lýsir viðhorfum, hegðun, forréttindablindu og tilkalli sem fara einkar illa með valdastöðu í íslensku samfélagi. Best væri ef Tómas sæi sjálfur að sér og bæðist lausnar. Næstbest væri að Flokkur fólksins, sem segist standa með fátæku og jaðarsettu fólki og hefur gripið til brottrekstrar fyrir annað eins myndi sannfæra hann um að gera það.

Í öllu falli getum við hin reynt að leggja okkur fram um að vera ekki eins og Tómas. Að vera meðvituð um forréttindin okkar og passa upp á að misnota þau ekki. Að bera virðingu fyrir fólki af öllum kynjum, frá öllum löndum og úr öllum stéttum. Og stunda aðeins kynlíf á jafningjagrunni.


Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: