Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

FYRIRTÆKI VIKUNNAR: PINKYGLOVES

Fyrirtækið Pinkygloves var stofnað nýlega af tveimur körlum í Þýskalandi. Þeir höfðu að eigin sögn búið með konum og vissu því að það væri bara engin góð lausn til fyrir þær til að losa sig við túrvörur. Þeir félagar vörðu talsverðum tíma og fjármunum í að hanna sérstaka bleika hanska með tvíþættu notagildi: Að verjast snertingu við blóð og breytast í poka undir bindið/tappann.

Svo kynntu þeir hugmyndina í raunveruleikaþætti í sjónvarpinu. Þar féll hún í kramið hjá karlkyns fjárfesti sem lagði strax til 30 þúsund evrur. Eftir þáttinn fór þó að halla undan fæti, enda rigndi yfir þá
athugasemdum sem einhverra hluta vegna höfðu ekki komið fram fyrr:


  • Helmingur mannkyns hefur í gegnum tíðina skipt um túrvörur án þess að setja það fyrir sig að snerta blóð.
  • Varan byggir á gamaldags hugsunarhætti sem elur á skömm í stað þess að líta á blæðingar sem eðlilega líkamsstarfsemi.
  • Varan eykur kostnað vegna blæðinga á sama tíma og almennt er reynt að sporna gegn „blæðinga-fátækt“.
  • Að bæta plasthönskum við bindi og tappa til urðunar er ekki það sem umhverfið þarf á að halda.


Fljótlega kom sumsé í ljós að varan er óþörf og hefur neikvæð áhrif á umhverfið og ætlaðan markhóp. Framleiðslu hefur því verið hætt.


HVAÐ KLIKKAÐI?

Stofnendurnir vildu sjálfsagt vel, en féllu í vel þekkta gildru: Að ofmeta eigin skilning á raunveruleika, þörfum og vilja annars fólks og eigin getu til að koma til móts við þetta allt saman. Þeim datt ekki í hug að kanna þörfina eða ráðfæra sig við markhópinn. Þeir voru sannfærðir.

Það er ekkert skrítið. Þeir hafa alist upp í heimi sem sýnir þeim oftast karla tala við karla um allt sem skiptir máli. Heimi sem hefur 
byggst upp af körlum sem í gegnum tíðina hafa ráðfært sig við aðra karla um hvernig okkur væri öllum best borgið. Þetta hefur sem betur fer (löturhægt) breyst og vonandi hafa þeir félagar lært að heimurinn er flóknari en þeirra afmarkaða sjónarhorn gefur til kynna.


Ákvörðun fjárfestisins er svo efni í annan pistil. Stuttu áður hafði hugmynd um endurnýtanlegar túrnærbuxur ekki hlotið brautargengi í sama þætti. Sú vara var kynnt af konum sem höfðu hannað vöruna með umhverfissjónarmið, þarfir og vilja markhópsins að leiðarljósi.

Fjárfestingargeirinn er einn karllægasti hluti samfélagsins. Á undanförnum árum hefur 
2-3% sprotafjármagns verið varið til fyrirtækja í eigu kvenna sem kemur ekki á óvart þar sem aðeins 12% ákvarðanatökuaðila eru konur. Staðalmyndir, kynjaður reynsluheimur og ómeðvituð hlutdrægni hafa án efa umtalsverð áhrif þar á.

Hvað getum við lært af Pinkygloves?

Í stuttu máli: Einsleitir hópar eru ekki heppilegir til ákvarðanatöku og það er eiginlega ómögulegt fyrir okkur að skilgreina, hvað þá leysa vanda sem við höfum ekki upplifað sjálf.

Það áhrifaríkasta sem við getum gert er að leita eftir fjölbreyttum sjónarmiðum í öllu sem við erum að fást við. Við þurfum að vera tilbúin til að hlusta, endurmeta, breyta, hætta við og/eða byrja upp á nýtt. Það er vesen og alls ekki alltaf gaman, en það getur margborgað sig að standa í smá veseni ef það kemur í veg fyrir flopp á borð við Pinkygloves.

Takk fyrir í dag, njótið sumarsins!

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: