Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

TEIKNIMYNDASAGA VIKUNNAR: I'M NOT POLITICAL...

Ég hef oft verið spurð af hverju í ósköpunum ég þurfi stöðugt að vera að standa í öllu þessu veseni. Af hverju ég geti ekki bara slakað aðeins á, ég þurfi ekki að benda á allt sem miður fer eða taka alla slagi. Þetta sé nú allt að koma. Svo það sé sagt, þá slaka ég alveg stundum á og tek alls ekki alla slagi. Raunar miklu færri en ég gæti. Að öðru leyti á þessi hugleiðing ekki að snúast um mig.

Okkur finnst mörgum að fólk sem stendur í mannréttindabaráttu sé með hana á heilanum. Að þau séu stöðugt að gera úlfalda úr mýflugu með því að agnúast út í hluti sem eru ekki stórmál. Hvaða máli skiptir það þótt Von der Leyen hafi setið í sófa á einum fundi? Skiptir það í alvöru máli að einhverjir gaurar í Þýskalandi hafi fengið vonda hugmynd? Getum við ekki bara slakað á og forðast öll þessi átök?

Flest erum við nefnilega í stöðu til að slaka á og forðast átök. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af hindrunum sem stjórnmálakonur mæta dags daglega. Blæðingaskömm, hvað þá blæðingafátækt, hefur ekki áhrif á okkar daglega líf. Við njótum þeirra forréttinda að verða ekki fyrir mismunun eða útilokun frá degi til dags. Við getum bara verið róleg og slakað.

En það er til fólk sem er ekki í þeirri stöðu. Stelpurnar sem hafa staðið fyrir vitundarvakningu um blæðingar og barist fyrir fríum túrvörum hafa sannarlega þurft að hafa fyrir því að skoðanir þeirra heyrist. Konur eru enn í minnihluta í stjórnmálum um allan heim og munu halda áfram að sæta tíðari, harðari og persónulegri gagnrýni en karlar ef við tökum ekki öll afstöðu gegn slíku. Og við sem erum fædd og uppalin á Íslandi þurfum að taka þátt í að tryggja öryggi fólks sem hingað leitar í alþjóðlega vernd með því að berjast fyrir mannúðlegri meðferð og móttökum.

Það er nefnilega ekki bara þögn undirskipaðra og óvarinna hópa sem viðheldur misrétti og misréttið er ekki þeirra einkamál. Við hin, sem búum við öryggi og erum ekki undirskipuð höfum rödd sem hlustað er á. Við þurfum ekki að öskra á torgum, við getum einfaldlega stutt og staðið með undirskipuðum hópum og þar með styrkt raddir þeirra og dregið úr átökum.

Ef við treystum okkur ekki til þess að taka virkan þátt í baráttu undirskipaðra hópa getum við í það minnsta dregið úr 
umvöndunum gagnvart þeim. Fólk sem þarf á allri sinni orku að halda til að rödd þess heyrist má ekki við því að þurfa líka að réttlæta eða útskýra ástæður baráttunnar fyrir okkur sem viljum fá að slaka í forréttindunum okkar.

Að lokum: Hér hafa verið nefnd stór pólítísk viðfangsefni, en prófum að setja þetta í samhengi við okkar daglega líf. Er einhver á þínum vinnustað sem er stöðugt að þusa yfir að bollarnir vaski sig ekki upp sjálfir? Getur verið að þér finnist það vera óþarfa tuð og geðvonska?

Bestu kveðjur og góða helgi,

Sóley

Innblástur og myndir færslunnar er teiknimyndasaga 
@storysellercomics á Instagram.

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: