FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: ANDÚÐ OG UPPHAFNING

Ég get ekki hætt að hugsa um bakslagið sem nú er í gangi. Um uppgang öfgahægris og aukna andúð gagnvart jaðarsettu fólki. Um hvernig þetta hefur þróast og til hvers það getur leitt.

Ég hef ítrekað
vísað í haturspíramídann og bent á hvernig hundaflaut er notað til að styrkja ómeðvitaða hlutdrægni, ala á fordómum og hvetja til ofbeldis. Hundaflautið felst fyrst og fremst í því að segja passlega ósmekklega hluti um jaðarsetta hópa í samfélaginu til að það hafi áhrif án þess að hægt sé að fullyrða að um hreina andúð sé að ræða.

UPPHAFNING ÍHALDSEMINNAR


Önnur og ekki síður áhrifarík leið er að tala upp hið viðtekna, hefðbundna og jafnvel úrelta. Í málflutningi, myndmáli og áherslum öfgahægrisins má sjá aukna og ýkta notkun íslenska fánans, ríka áherslu á þjóðlegar, kristnar hefðir og líkamlegt hreysti og ekki síst uppphafningu á kynhlutverkum og kyntjáningu fortíðar.

Þessi tegund hundaflauts er eiginlega enn lúmskari. Svolítið þjóðarstolt er varla glæpur, kristin gildi hafa aldrei verið talin slæm, hreysti er mikilvægt fyrir okkur öll og fólk hlýtur að hafa frelsi til að velja sér hefðbundin kynhlutverk þar sem jafnrétti ríkir.

SAMVERKANDI ÞÆTTIR


Allt ofangreint væri í raun satt og rétt, ef það væri ekki í sömu setningunni. Og ef það væri ekki sagt af sama fólkinu og elur á neikvæðum tilfinningum gagnvart fólki sem ekki passar inn í þessa gamaldags mynd af hefðbundnu, þjóðræknu, kristnu og hraustu fjölskyldunni sem eignast mörg börn og skiptir með sér verkum eins og árið sé 1960.

Bakslagið byggir þannig á blöndu af rasisma og þjóðernishyggju, karlrembu og kjarnafjölskylduhyggju, fötlunar-/fitufordómum og útlitsdýrkun, múslímafóbíu og kristnum áherslum og fjölmörgum öðrum andstæðum andúðar og upphafningar. Saman virka andúðin og upphafningin einkar vel til að ýkja muninn á hinu viðtekna og því jaðarsetta.

ÁHRIFIN


Mögulega trúir einhver því að jaðarsett fólk ógni öryggi, vellíðan og mannréttindum forréttindafólks. Að aðför öfgahægrisins að jaðarhópum sé samfélaginu til góðs. Að öllum muni líða betur í samfélagi þar sem konur verði lokaðar inni á heimilum, fatlað fólk á stofnunum, útlendingar í útlöndum og hinsegin fólk í skápum.

Sjálf óttast ég þessa framtíðarsýn. Það er nóg eftir af kerfislægum hindrunum sem hamla virkri þátttöku kvenna, kvára, fatlaðs fólks, útlensks fólks, feits fólks, fátæks fólks og annars jaðarsetts fólks í samfélaginu. Það er engin þörf á að fjölga eða ýkja hindranir. Samfélag aðgreiningar og mismununar er ekki gott fyrir neitt okkar.

GREINUM OG RÖKRÆÐUM


Við verðum öll að leggjast á eitt til að hefta útbreiðslu öfgahægrisins. Við verðum að standa saman, virða tilvist fólks og réttindi, afmá hindranir, tala saman og auka skilining á flækjustigum samfélagsins. Við verðum að benda á hættulega orðræðu, hundaflaut og andúð. Við verðum að tala gegn slíku og standa með með inngildingu, samkennd og mannréttindum okkar allra.

Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 24. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN!
Eftir soleytomasdottir 17. október 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: REYKJAVÍKURMÓDELIÐ  OG EFNAHAGSLEGUR VERULEIKI EINSTÆÐRA FORELDRA
Eftir soleytomasdottir 10. október 2025
MONT VIKUNNAR: OG SEINNA BÖRNIN SEGJA
ELDRI FÆRSLUR