FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: ALVARLEIKI GLÆPA

Mamma var fjarlægð af Facebook í gær fyrir að brjóta gegn reglum samfélagsmiðilsins um auglýsingar. Hvort hún hafi verið tilkynnt og fyrir hvað vitum við ekki. Líklega felst brotið í því að deila tveimur óskyldum auglýsingum frá fólki í íbúðarleit á tiltölulega stuttum tíma. Henni var vikið sissvona af miðlinum vegna illa rökstudds grunar um að hún hyggðist leggja leigumiðlun fyrir sig á efri árum.


Á sama tíma er næstum ómögulegt að fá hatursorðræðu og ógnandi tilburði gagnvart konum, kvárum og jaðarsettu fólki fjarlægt af sama miðli, þrátt fyrir ítrekaðar tilkynningar. Afbrot á samfélagsmiðlum eru nefnilega tekin misalvarlega, rétt eins og í raunheimum.


HVAÐ ER GLÆPUR?


Þó við trúum á réttarríkið er nauðsynlegt að horfast í augu við að réttarkerfið okkar er meingallað. Það var upphaflega hannað af forréttindakörlum fyrir forréttindakarla og ber þess enn merki. Þrátt fyrir að kerfið hafi verið stagbætt með réttarbótum í þágu barna, kvenna og jaðarsettra hópa eru orðfæri þess, forgangsröðun og skilgreiningar enn karllæg og forréttindamiðuð.


Eitt dæmi snýst um samband atvinnurekenda og launafólks. Almenn sátt ríkir um rimlagjöld, þ.e. að það jafngildi þjófnaði að standa ekki skil á opinberum gjöldum sem dregin hafi verið af launafólki. Þess vegna eru atvinnurekendur gerðir persónulega ábyrgir og látnir sæta sektum eða jafnvel fangelsi verði þeir uppvísir að slíku athæfi.


Það sama gildir ekki um kynbundinn launamun. Samkvæmt lögum um kynbundninn launamun ber atvinnurekendum að greiða tap, mögulegan miska og jafnvel sekt. Ég veit þó ekki til þess að sektarákvæðum hafi nokkurn tímann verið beitt, og stjórnendur eru aldrei látnir axla ábyrgð persónulega. Kynbundinn launamunur er samt nákvæmlega jafnmikill þjófnaður og að standa ekki skil á rimlagjöldum, eins og ég hef áður skrifað um hér


Þetta er bara eitt dæmi af mýmörgum um það hversu stutt við erum komin í að skilgeina og viðurkenna afbrot. Áreitni og stafrænt kynferðisofbeldi eru dæmi um tiltölulega nýsamþykkt afbrot, en enn á eftir að skilgreina og viðurkenna fjölda birtingarmynda mismununar. Við skilgreiningu á alvarleika glæpa skiptir máli hver eiga í hlut, á hverjum glæpurinn bitnar og af hverjum hann er framinn.


HVER FREMUR GLÆPINN?


Eitt er að skilgreina og viðurkenna afbrotin, en svo er hitt, að horfast í augu við að þau séu framin. Á Íslandi hefur öfgahægrið miklar áhyggjur af aukinni glæpatíðni sem það vill meina að fylgi fjölgun innflytjenda. Skoðanasystkini þeirra í Bandaríkjunum rökstyðja sinn rasisma með tölum um fjölda svartra fanga þar í landi. Hvort tveggja er bæði ástæða og afleiðing forréttindafirringar. 


Rannsóknir sýna að kynþáttamörkun (racial profiling) er markvisst beitt í bandarísku réttarkerfi, þar sem svartir karlar eru oftar stoppaðir úti á götu, oftar handteknir og oftar dæmdir en hvítir karlar. Sama mynstur má sjá í íslensku réttarfari, þar sem karlar af erlendu bergi eru oftar dæmdir fyrir kynferðisbrot en íslenskir karlar, þó mun fleiri íslenskir karlar séu kærðir.


VANÞEKKING, HANNÚÐ OG FORDÓMAR


Réttarkerfið verður ekki krufið til mergjar í þessum pistli, en vonandi hefur mér tekist að vekja ykkur til umhugsunar um hvað við viðurkennum og samþykkjum sem glæpi. Erum við tilbúin að skilja og sporna gegn glæpum þó við eigum ekki á hættu að verða fyrir þeim sjálf? Erum við tilbúin að dæma fræga fótboltamenn og poppara jafn harkalega og óþekktan flóttamann? Er sanngjarnt að tungumál, húðlitur og tengslanet hafi áhrif á skilgreiningu á glæpum, að brotaþolar séu teknir alvarlega og að glæpamenn séu látnir sæta refsingu? 


Þetta er síðasta hugleiðing fyrir sumarfrí, næsta kemur einhvern tímann í ágúst. Njótið sumarsins, verið góð hvert við annað og gagnrýnin á ykkur sjálf þangað til þá.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 20. júní 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HÁTÍÐARHÖLD Á 19. JÚNÍ
Eftir soleytomasdottir 13. júní 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: REIÐAR KONUR
Eftir soleytomasdottir 6. júní 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÞRÓUN ÍSLENSKS RASISMA
ELDRI FÆRSLUR