Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


VANDMEÐFARIÐ VIKUNNAR: AÐ HRÖKKVA EKKI Í VÖRN

Ég reyni alltaf að hafa tíma fyrir smá speglun undir lok námskeiða. Spyr hvort fólk telji sig hafa lært eitthvað, hvort það telji sig geta nýtt lærdóminn og bið um ábendingar um það sem betur mætti fara.

Í síðustu viku var einn þátttakandi sérstaklega eftirminnilegur. Hann var virðulegur miðaldra hvítur karl í stjórnendastöðu í stöndugu fyrirtæki í Reykjavík. Þessi þátttakandi rétti upp hönd undir lok námskeiðs og sagði námskeiðið hafa reynt mjög á sig. Hann hefði ítrekað fundið fyrir þörf fyrir að verjast, mótmæla og efast um það sem ég var að segja og að hann hefði þurft að beita sig hörðu til að láta það ekki eftir sér.
 

SJÁLFVIRK VARNARVIÐBRÖGÐ


Ég hef 
tvisvar áður skrifað um sjálfvirk varnarviðbrögð. Tilhneigingu okkar til að verjast, afneita og réttlæta óviðeigandi hegðun eða framkomu sem við verðum uppvís að. Flest förum við þá í gegnum samskonar ferli sem er eitthvað á þessa leið:


  1. Vanlíðan: Það er ómaklega að mér vegið. Ég er ekki rasisti/karlremba/hómófób...
  2. Afneitun: Gagnrýnin byggir á tilfinningasemi, húmorsleysi eða jafnvel mannvonsku
  3. Réttlæting: Þetta var ekki af ásetningi, heldur eru ástæður fyrir því sem ég gerði
  4. Sátt: Gagnrýnin er réttmæt og ég get breytt hegðun og/eða framkomu
  5. Úrvinnsla: Ég hef lært og mun leggja mig fram um að þetta endurtaki sig ekki


Sjálfvirk varnarviðbrögð spretta upp úr skakkri sjálfsmynd og skrímslavæðingu. Við trúum því einlæglega að við séum góðar manneskjur og viljum alls ekki verða uppvís að því að mismuna eða útiloka. Sérstaklega af því að við höfum tekið þátt í að fordæma slíka hegðun og fólk sem hana ástundar.


AÐ VERJAST STAÐREYNDUM


Líðan mannsins á námskeiðinu er líklega sprottin af svipuðum meiði. Við höfum ekki bara tilhneigingu til að verja okkur sjálf, heldur líka samfélagið sem við tilheyrum. Kannski sérstaklega þegar við höfum verið alin upp við að Ísland sé best í heimi. Það er sárt að horfast í augu við að Ísland sé kannski ekki alveg fullkomið, stéttlaust velferðarsamfélag eða jafnréttisparadís.

Við slíkar aðstæður, þegar okkur er sagt frá kerfisbundinni útilokun og mismunun sem á sér stað á öllum vinnustöðum um allt samfélag, þá leitum við að dæmum til að afsanna hana. Þegar okkur er sagt að konur komist síður til áhrifa í atvinnulífinu en karlar, þá rifjum við upp að Ásta Fjeldsted sé nú forstjóri Festis og að hún hafi meira að segja verið ráðin þegar hún var ólétt. Þegar okkur er sagt frá þeim kerfisbundnu hindrunum sem samkynhneigt fólk mætir á vinnumarkaði rifjum við upp að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið forsætisráðherra. Og ef um allt þrýtur er gott að ylja sér við minninguna um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrstu konuna í heiminum sem var lýðræðislega kjörin forseti.


HÆTTUM AÐ VERJAST


Við þurfum ekki að verjast. Við þurfum þvert á móti að vera auðmýkri gagnvart eigin breyskleika og ófullkomleika samfélagsins sem við búum í. Við þurfum að hlusta, læra og fræðast um hvernig við getum hagað okkur með meira inngildandi hætti og við þurfum að greina, læra og fræðast um þær hindranir sem eru innbyggðar í ferla, reglur, viðmið og verðmætamat samfélagsins. Það er það sem þátttakandi síðustu viku vandaði sig við að gera og hann má sannarlega vera stoltur af því.

Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: