FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: MENNINGARBRÚ
Ég var í svo skemmtilegu verkefni í dag. Það varð til eftir stjórnendafræðslu á Landspítalanum um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu þar sem við Herdís Sólborg, samstarfskona mín, kynntumst Marvi Gil. Marvi er hjúkrunarfræðingur frá Filippseyjum sem hefur búið lengi á Íslandi, þekkir báða menningarheima og samkrull þeirra á Landspítalanum mætavel. Þesssi kynni leiddu til samstarfs um að skipuleggja menningarbrú, þar sem íslenskt og filippeyskt starfsfólk kæmi saman til að ræða það sem þau eiga sameiginlegt, en líka hitt sem getur leitt til misskilnings eða óöryggis.
MENNINGARBRÚ Á LANDAKOTI
Í dag héldum við prufufund með stjórnendahópi á Landakoti. Ræddum um óskráðar reglur sem sum kunna og önnur ekki. Til dæmis þá óskráðu reglu í filippeyskri menningu að forðast að segja nei. Þar segir fólk já, þó það meini nei. Filippseyingar vita hvenær jáið er einlægt og hvenær ekki út frá tónfalli og líkamstjáningu en Íslendingar eiga erfitt með að skilja þetta. Hvernig veit ég hvenær já þýðir nei. Og hvað á ég að gera ef einhver segir já en meinar nei?
Út frá þessu spunnust upp umræður um þérun í Hollandi, sem mér virðist vera fyrirmunað að nota rétt og um notkun gælunafna á Íslandi sem hollenski maðurinn minn á erfitt með að tileinka sér. Mér er minnisttætt þegar hann svaraði umsókn frá ókunnugri konu að nafni Sigríður Guðmundsdóttir með upphafsorðunum Sæl Sigga!
Menningarbrúin er ekki hugsuð til að setja reglur um samskipti, heldur til að æfa fólk í að tala saman. Að setja orð á það sem við hugsum oft, tölum kannski um við okkar nánustu en þorum ekki að nefna af því við vitum ekki hvort við erum að greina menningarleg áhrif rétt. Hvort þetta sé bara eitthvað persónulegt eða hvort þessar hugsanir okkar séu byggðar á rasisma. Það er vel mögulegt að við höfum rangt fyrir okkur. Stundum eru skoðanir okkar eða greiningar byggðar á rasisma, þó það sé ekki af ásetningi. Stundum eignum við fólki einhverja eiginleika byggt á staðalmyndum og stundum eignum við hópum eiginleika byggt á hegðun einstaklinga.
MIKILVÆGI SAMTALSINS
Landspítalinn er fjölbreyttur vinnustaður og það er mikilvægt að öllu starfsfólki líði þar vel. Eina leiðin til að svo geti orðið er að tala saman um það sem betur má fara, ræða um skráðar og óskráðar reglur, reyna að skilja hvert annað og virða hvert annað þó við skiljum kannski ekki alveg allt.
Samtalið í dag fór vel af stað, þar gafst tími og rúm til að rýna í samskiptahætti og leita leiða til að bæta þá. Ég hlakka til að halda áfram og hef trú á að það muni leiða til þess að fólk verði duglegra að tileinka sér það jákvæða úr öðrum menningarheimum og gera minna af því neikvæða.
Að þessu sögðu er þó mikilvægt að taka fram að greining á menningareinkennum getur styrkt staðalmyndir og haft neikvæð áhrif. Í svona samtali þarf því að minna fólk oft og iðulega á að allar þjóðir innihalda fjölbreytt fólk. Við getum aldrei alhæft um menningarheim og eigum ekki að nota greiningarnar til þess, heldur til að dýpka skilning okkar og aðlaga okkur að fjölbreyttu samfélagi og fjölbreyttum vinnustað.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki