Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGTAK VIKUNNAR: ÓVIÐURKENND VERKEFNI

Hulda Tölgyes og Þorsteinn V. Einarsson skrifuðu góða grein um þriðju vaktina í vikunni. Sú vakt verður sérlega fyrirferðarmikil í aðdraganda jóla eins og þau lýsa vel í greininni. Rannsóknir hafa sýnt fram á sligandi áhrif þriðju vaktarinnar, sér í lagi á mæður, dætur, systur og kærustur karla.


ÓVIÐURKENND VERKEFNI (E. NON-PROMOTABLE TASKS)

Þriðja vaktin er líka til staðar á vinnustöðum þó birtingarmyndirnar séu öðruvísi. Verkefni á borð við setu í umhverfis- siða- og/eða jafnréttisnefndum, skipulag og utanumhald með skemmtunum starfsfólks, sáttamiðlun, þjálfun nýs starfsfólks, aðstoð við eldra starfsfólk og hlaup í öll möguleg skörð eru til staðar á öllum vinnustöðum.

Fólk sem tekur að sér verkefnin fær þó sjaldnast umbun í formi fjármagns eða framgöngu, né heldur eru veittar viðurkenningar fyrir bestu frammistöðuna í málaflokknum. Þvert á móti getur álagið vegna þessara verkefna haft beinlínis neikvæð áhrif á frammistöðu fólks í hinni skilgreindu og eiginlegu vinnu og þannig hindrað umbun í formi fjármagns eða framgöngu á því sviði líka.



KONUR UMFRAM KARLA

Þriðja vakt vinnustaðanna fellur frekar á herðar kvenna en karla. Það hefur í gegnum tíðina verið útskýrt með því að konur séu samfélagslega ábyrgari og taki oftar hagsmuni annarra framyfir eigin. Eins og það sé eitthvað náttúrulögmál.

Rannsóknir á kynjaðri verkaskiptingu hafa hrakið þessa eðlishyggjunálgun, enda er dreifing óviðurkenndra verkefna mun jafnari í kynskiptum hópum. Konur eru líklegri til að bjóða sig fram til óviðurkenndra verkefna ef karlar eru í hópnum og karlar eru síður líklegir til að bjóða sig fram til óviðurkenndra verkefna ef konur eru í hópnum. Og verkefnin eru ekki síður unnin í hópum sem bara samanstanda af körlum en konum.



REFSING, EKKI VIÐURKENNING

Félagsmótunin hefur kennt konum að þjónusta karla og körlum að ætlast til þjónustu af konum. Hún á sér m.a. stað í með beinum og óbeinum skilaboðum til kvenna sem neita að taka að sér óviðurkennd verkefni. Körlum er oftar sýndur skilningur, enda hafa þeir öðrum mikilvægari verkefnum að sinna á meðan konur eru taldar sérhlífnar og skorta samstarfshæfileika.

Konur hljóta ekki viðurkenningu fyrir að vinna verkefnin, en viðurlögin við að vinna þau ekki er harðari en karla.

JAFNVÆGI MILLI VINNU OG VINNU

Allir vinnustaðir reyna að stuðla að jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Minna fer fyrir jafnvægi milli verkefna, að öll verkefni séu skilgreind og launuð og að þeim sé dreift með sanngjörnum hætti. Endurmat á virði kvennastarfa felst ekki síst í greiningu og viðurkenningu á þriðju vakt vinnustaða og breytingum í átt að sanngjarnara fyrirkomulagi.

Fólk sem er í stöðu til að breyta gæti byrjað á að velta fyrir sér hvaða verkefni falla undir þriðju vakt vinnustaðarins. Hvaða verkefni eru ekki til staðar í starflýsingum? Hvaða verkefni skiptist fólk á að vinna, eða eru ekki unnin óumbeðið? Er hægt að skrifa þau inn í starfslýsingar og greiða fyrir þau? Eða eru þetta verkefni sem skipta raunverulega engu máli fyrir vinnustaðinn?

Eins og önnur verkefni sem varða jafnrétti og inngildingu, þá krefst þetta flókinnar greiningarvinnu og jafnvel umtalsverðrar endurskipulagningar. En það verður að hafa það. Ef við viljum að fólk hafi raunverulega jöfn kjör, tækifæri og aðgengi að framgöngu í starfi þá þurfum við að afmá hindranir sem eru til staðar hjá sumum hópum umfram aðra.

Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 26 Apr, 2024
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Eftir soleytomasdottir 19 Apr, 2024
SPURNING VIKUNNAR
Eftir soleytomasdottir 15 Mar, 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STÉTTSKIPTUR VINNUMARKAÐUR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: