FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: FÆÐINGARORLOF
Á Íslandi eiga foreldrar rétt á 52 vikna fæðingarorlofi sem skal skiptast jafnt, þó hægt sé að framselja sex vikur til maka. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt fyrir að greiðslur falli niður ef annað foreldrið tekur minna en 20 vikur, jafnvel þó hitt foreldrið sé heima.
FRJÁLST VAL
Ofangreind gagnrýni birtist m.a. í aðsendri grein á Vísi þar sem hæðst var að forræðishyggju hins opinbera og talað fyrir frelsi foreldra til að ákveða sjálf hvernig þau skipti fæðingarorlofinu. Í greininni er gengið út frá því að það eina sem skerði valfrelsi foreldra um skiptingu fæðingarorlofs sé ákvæði laganna um framsal vikna.
Það er mikil einföldun á veruleika sem verður ekki útskýrður í einni hugleiðingu. Veruleika kynbundinnar verkaskiptingar, kynbundins verðmætamats og staðalmynda sem hafa mótað okkur öll. Veruleika kynbundins launamunar sem er ekki bara orsök ójafnrar skiptingar fæðingarorlofs heldur líka afleiðing. Veruleika vinnumarkaðar þar sem því er misvel tekið að feður fari í fæðingarorlof. Veruleika þar sem ekki bara skráðar, heldur líka mjög margar óskráðar reglur hafa áhrif á ákvarðanir okkar og meint val.
ÖNNUR GAGNRÝNI
Þó nálgunin gagnvart skiptingu fæðingarorlofs byggist á einföldun er ansi margt vel ígrundað í greininni. Þar er til dæmis sýnt fram á að það geti verið dýrara fyrir feður að fara í fæðingarorlof en mæður þar sem þeir taka orlofið seinna verða viðmiðunartekjur þeirra eldri (og þar með oft lægri) en mæðranna. Í greininni kemur líka fram beitt gagnrýni á fyrirkomulag fyrir námsfólk, á skerðingarnar sem fólk verður fyrir ef það eignast börn með stuttu millibili og á hið óbrúaða bil milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Það eru þessi atriði sem skerða valfrelsi fólks. Ekki ákvæði um skiptingu orlofsins. Enda segir framkvæmd foreldra á fæðingarorlofsskiptingu ekkert til um vilja þeirra. Langflestir foreldrar, af öllum kynjum, vilja vera sem mest með börnunum sínum og taka það fæðingarorlof sem er í boði.
TÖFRALAUSNIR ERU EKKI TIL
Ég skil vel að fólk vilji geta lagað óréttlæti heimsins með því að breyta vikuskiptingu fæðingarorlofslaganna. Það er bara allt of mikil einföldun sem myndi engu skila. Þess í stað þurfum að horfast í augu við flækjustig valdakerfisins og breyta því.
Til að fólk af öllum kynjum geti nýtt fæðingarorlofið til fulls þarf að laga allar flækjurnar í lögunum. Draga úr skerðingum vegna ýmist of mikillar eða of lítillar vinnu, vegna náms, ósanngjarnra tímaviðmiða og annarra aðstæðubundinna þátta. Það myndi sannarlega hafa áhrif á tækifæri feðra til að fullnýta sinn rétt.
BARNVÆNNA SAMFÉLAG
Þessu til viðbótar þurfum við að halda áfram að gera samfélagið barnvænna. Við þurfum að tryggja að foreldrar geti sinnt börnunum sínum af alúð, að leik- og grunnskólar séu öruggir og uppbyggilegir og að frístundastarf sé fjölbreytt og skemmtilegt. Við þurfum að draga úr hamlandi áhrifum staðalmynda og skapa samfélag þar sem öll fá að vera þau sjálf, frjáls undan viðjum gamaldags verkaskiptingar og vinnubragða.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki



