FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: MEIRA UM TÖFRALAUSNIR

Þó síðasta hugleiðing hafi snúist um fæðingarorlof, þá snérist hún í grunninn um ofureinfaldaðan málflutning og hvernig ein töfralausn var kynnt til sögunnar á margslungnum vanda. Í því tilfelli átti töfralausnin að felast í að veita foreldrum frelsi til að skipta fæðingarorlofinu á milli sín að vild. Raunveruleikinn er þó sá að fólk af öllum kynjum vill gjarnan nýta allt það fæðingarorlof sem er í boði, þó fjölmargar formlegar og óformlegar hindranir komi í veg fyrir að þau geri það.

 

POPÚLISMI


Popúlísk aðferðafræði nærist á núönsum samfélagsins. Að höfða til almennings með einföldum upphrópunum og einföldum lausnum. Að blása upp flókin viðfangsefni, gera þau að afmörkuðu vandamáli og bjóða upp á kvikkfix án þess að blanda valdakerfi, verðmætamati, sögulegu samhengi eða óskráðum reglum inn í málið.


Harðlínuhægrið beitir popúlisma markvisst. Það elur á óöryggi og fordómum og býður upp á einfaldar lausnir í þágu hins viðtekna á kostnað hinna jaðarsettu. Afneitun á kynjafjölbreytileika er til dæmis einföld og þægileg lausn fyrir fólk sem finnst flókið að samfélagið sé flóknara en við héldum. Það skiptir engu máli þó það bitni á fólkinu sem ekki fellur að kynjatvíhyggjunni.

 

EINKUNNAGJÖF OG POPÚLISMI


Nýjasta dæmið um popúlíska nálgun er krafan um einkunnir í tölustöfum í grunnskólum. Sú krafa snýst um að veita upplýsingar um hversu hátt hlutfall þekkingar börn hafi náð að tileinka sér af námsmarkmiðum vetrarins. Auðvitað væri þægilegt fyrir foreldra að fá slíkar upplýsingar, helst upp á kommu og losna við að þurfa að skilja þetta óræða kerfi sem nú er við lýði.


En veruleikinn er bara ekki svona einfaldur. Í vikunni benti Eiríkur Rögnvaldsson á að þessi krafa byggði á ofureinföldun. Það væri blekking að halda því fram að hægt væri að meta nákvæmlega að hvaða marki nemendur gætu uppfyllt námskröfur og ekki síður að kennarar gætu gert það með nákvæmum hætti. Það væri ekki til hlutlæg aðferð til að meta hvort einkunn ætti að vera 7,0, 7,5 eða 8,0 með óyggjandi hætti.

 

RAUNVERULEIKINN


Í raun snýst popúlismi um að spila á tilfinningar almennings. Að ýfa upp tortryggni, andúð og vanlíðan yfir flækjustigi heimsins og sefa svo þessar sömu tilfinningar með meintum töfralausnum. Að þykjast vera með almenningi í liði til þess eins að afla sér fylgis. Popúlismi er aldrei í þágu almennings. Hann er í þágu popúlistanna sjálfra, oftast á kostnað jaðarsetts fólks.


Við verðum að sjá í gegnum blekkingar popúlistanna og við verðum að benda á þær. Eina leiðin til að bæta samfélagið er að greina og skilja og horfast í augu við flókið valdakerfi, afmá þær hindranir sem þar eru og stuðla að virkni, þátttöku og öryggi alls fólks.

 

Bestu kveðjur,

 

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 28. nóvember 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: FÆÐINGARORLOF
Eftir soleytomasdottir 21. nóvember 2025
HUGTAK VIKUNNAR: VOPNAVÆDD VANHÆFNI
Eftir soleytomasdottir 14. nóvember 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: REIÐI
ELDRI FÆRSLUR